Að standa við litlu loforðin gagnvart sjálfum sér

Sjálfstraust er birtingarmynd sjálfsvirðingar
Sjálfstraust er birtingarmynd sjálfsvirðingar

Hefurðu einhvern tímann svikið litlu loforðin sem þú hefur gefið sjálfum/sjálfri þér? Hefurðu ætlað að gera eitthvað sem þú veist að muni skila þér árangri en slegið því síðan á frest eða talið þér trú um að það sé hugsanlega ekki rétta leiðin, eða hvorki staðurinn né stundin? Eða þá bara verið að drepast úr leti?

Auðvitað! Allir kannast við þetta en sumir þó betur en aðrir. Yfirleitt eru þetta lítil loforð sem við gefum okkur og hafa þar af leiðandi ekki mikil áhrif á okkur til skemmri tíma. En langtímaáhrifin geta í versta falli bæði orsakað andlegt og líkamlegt gjaldþrot.

„Hvað þýðir sjálfstraust?“ spyr ég oft þátttakendur á námskeiðum hjá mér. Svörin sem ég fæ eru margvísleg og oft skemmtileg. „Sjálfstraust er hvernig manni líður með sjálfan sig!“ er algengt svar. „Hvort maður stendur með sjálfum sér!“ segja líka margir. Umræðan um þetta fær að lifa í smátíma en svo leyfi ég mér yfirleitt að vera ósammála öllum viðstöddum.

Í strangasta skilningi þýðir sjálfstraust eitt og aðeins eitt – að treysta sjálfum sér. Að geta treyst því að maður standi við eigin loforð og nái markmiðum sem sett hafa verið. Punktur!

Setjum þetta í annað samhengi. Myndir þú vilja búa með einhverjum sem svíkur jafnmörg loforð sem hann gefur þér og þú gerir gagnvart sjálfum/sjálfri þér? Myndirðu bera mikla virðingu fyrir honum? Væntanlega ekki. Því oftar sem við svíkjum okkur sjálf, þeim mun minni er sjálfsvirðingin.

Þessu má líkja við tré: rótarkerfið táknar sjálfsvirðinguna, krónan táknar sjálfstraustið og bolurinn táknar okkar innri styrk – hvort við bognum eða brestum þegar á móti blæs. Það má því segja að líkt og rótarkerfið nærir tréð næri sjálfsvirðingin sjálfstraustið. Sjálfstraust er birtingarmynd sjálfsvirðingar.

Í hvert skipti sem við svíkjum lítið loforð sem við höfum gefið okkur slítum við eina litla rót. Ein slitin rót er ekki mikill skaðvaldur. En ef við höfum leyft fórnarlambinu að naga rótarkerfi okkar í langan tíma er líklegt að sjálfstraustið sé með einhverjum hætti farið að bera þess merki.

Það sem hefur verið lengi að sundrast getur tekið sinn tíma að byggja upp aftur. Ein besta aðferðin við að byggja upp sjálfstraust er í gegnum sjálfsvirðinguna og gengur einfaldlega út á að hætta að svíkja litlu loforðin sem maður gefur sjálfum sér. Byrja smátt og bæta svo í eftir því sem sjálfstraustið eykst. Ef þú berð ekki virðingu fyrir þér – hvernig geturðu þá ætlast til þess að aðrir geri það?

Þannig hangir þetta saman. Fórnarlambið og gerandinn eru í stöðugri baráttu um hugsanir þínar. Fórnarlambið vinnur markvisst og meðvitað í því að grafa undan sjálfstrausti þínu en gerandinn vill byggja það upp. Ef þú vilt í raun og veru afvopna fórnarlambið eru nokkur atriði sem þú þarf að gera (já – GERA!):

  1. Taka ábyrgð og horfast í augu við stöðuna nákvæmlega eins og hún er.
  2. Vinna verkefnin í bókinni af heiðarleika og samviskusemi.
  3. Gangast við þeirri staðreynd að þú ert það og þar sem þú ert vegna þeirra ákvarðana sem þú hefur tekið hingað til.
  4. Halda áfram – ekki gefast upp. Þú hefur allan þann viljastyrk sem þú þarft á að halda þó svo að fórnarlambið reyni að telja þér trú um annað.

Mundu bara að þó að þú sendir fórnarlambið á varamannabekkinn geturðu aldrei losað þig við það úr liðinu. Það bíður alltaf spennt eftir því að þú misstígir þig eða sláir slöku við. Þá kemur það sigri hrósandi inn á völlinn aftur: „Ég sagði þér það, ég vissi að þetta færi svona. Þú ert nú meiri ræfillinn!“

Þú ert þjálfarinn, liðsstjórinn, eigandinn. Þú hefur valdið. Þú ræður hverjir eru inni á vellinum og hverjir eru á bekknum. Þú velur viðbrögð þín. Þú ert gerandinn og skaparinn í þínu lífi – enginn annar.