Fórnarlambið Tímon og gerandinn Púmba

(Úr bókinni Sigraðu sjálfan þig)

Allir þekkja engilinn sem stendur á annarri öxl okkar og púkann með gaffalinn á hinni. Indíánarnir tala um hvíta og svarta úlfinn og við þekkjum einnig söguna um doktor Jekyll og herra Hyde. Að sama skapi má segja að vinirnir geðþekku, Tímon og Púmba, séu enn ein birtingarmynd þessara gagnverkandi afla. Tímon er yfirleitt sjálfhverfur og skammsýnn en Púmba samviska og réttsýni holdi klædd.

Væntanlega kannastu vel við þessar tvær hliðar á þér – hvað þú kallar þær skiptir ekki öllu máli en hér verður talað að vera annaðhvort gerandi eða fórnarlamb í eigin lífi. Vissirðu að þú fóðrar bæði gerandann og fórnarlambið með hugsunum þínum? Það þýðir að þú getur líka svelt þá með hugsunum þínum.

Fórnarlambið er skammsýnt og hvatvíst og hugtök á borð við langtímamarkmið, sjálfstjórn, viljastyrkur og þrautseigja eru ekki til í orðaforða þess. Þess í stað leitar fórnarlambið í hugtök á borð við neikvæðni, skömm, sektarkennd og ásakanir, og bregst oftar en ekki við með tortryggni, uppgjöf og frestunaráráttu. Þannig er öruggt að það afrekar fátt og í það minnsta ekkert sem er erfitt eða leiðinlegt. Þessar hugsanir halda fórnarlambinu föstu inni á þægindasvæðinu, þar sem því líður best.

Fórnarlambið er röddin í hausnum á þér sem telur þér trú um að þú sért „ekki nóg“ – ekki nógu góð manneskja, ekki nógu klár, ekki nógu aðlaðandi og að þú eigir ekki betra skilið. „Aumingja ég!“ segir fórnarlambið, sest niður og dæsir. „Hvað er í ísskápnum? Hvað er í sjónvarpinu? Ætli það sé ekki best að leggja sig aðeins?“

Það er þrennt sem er gott að vita og hafa hugfast viðvíkjandi fórnarlambinu. Í fyrsta lagi: fórnarlambið er hluti af þér. Í öðru lagi: fórnarlambið býr yfir sömu gáfum og þú. Það er enginn vitleysingur. Það þekkir þig best allra og veit nákvæmlega um allar þínar veiku hliðar. Í þriðja lagi: fórnarlambið mun berjast fyrir tilveru sinni og nýta öll tækifæri sem gefast til að læða inn efasemda- og úrtöluröddum.

Fórnarlambinu hugnast ekki sjálfshjálparbækur. Um leið og hlutirnir verða krefjandi mun fórnarlambið reyna að lauma inn þeirri hugmynd að þetta sé ekki þess virði eða einhvern tímann seinna sé mun hentugri tími til verka. Og áður en hendi er veifað ertu farin(n) að lesa kökuuppskriftir eða skoða Facebook til að sjá hversu æðisleg tilvera vina þinna er.