Hvað er markþjálfun?

Markþjálfun er fyrir fólk sem vill ná auknum árangri og auka skilvirkni. Markþjálfun er aðferðafræði sem er til þess fallin að hjálpa einstaklingum að öðlast skýrari framtíðarsýn og hvernig hægt er að nýta styrkleika sína til að raungera þá sýn. Markþjálfun er samræðuferli þar sem vitundarsköpun markþegans leiðir til nýrra lausna og tækifæra. Markþjálfun á rætur sínar að rekja til ýmssa fræðigreinar, m.a. leiðtogafræði, sálfræði, félagsfræði, taugavísindi og kennslufræði.

Markþjálfi er ekki ráðgefandi heldur leggur áherslu á að viðskiptavinurinn leiti sjálfur lausna á hverju máli sem tekið er fyrir. Markþjálfinn heldur hinsvegar utan um ferlið og nær með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum að beina viðskiptavininum sjálfum að kjarna málsins. 

Markþjálfun er eins og púsluspil þar sem megintilgangurinn er að leggja nokkur púsl á hverjum fundi þar til heildarmyndin er skýr. Sú mynd er í flestum tilvikum ný, fersk og kraftmikil, þar sem búið er að breyta draumum og væntingum viðskiptavinar í skýr markmið með tilheyrandi mótun aðgerða.

Ástæðan fyrir að markþjálfun hefur fest sig í sessi á undanförnum árum er einfaldlega að hún skilar árangri. Þeir sem notið hafa góðrar markþjálfunar, hvort sem er í störfum sínum eða einkalífi segja hana framúrskarandi tæki til að ná markmiðum og breyta hegðun eða einfaldlega að hugsa lífið upp á nýtt.

Stjórnendamarkþjálfun

Það er jafn mikilvægt fyrir stjórnanda að hafa markþjálfa og fyrir íþróttamann að hafa þjálfara. Starf markþjálfans gengur út á að kalla fram það besta í sínum skjólstæðingum og stuðla að því að þeir séu tilbúnir að takast á við síkvika VUCA viðskiptaveröld.

Stjórnendamarkþjálfun er mjög áhrifarík og framsækin þjálfunaraðferð, með áherslu á sérþarfir einstaklingsins eða hópsins. Stjórnendamarkþjálfun eykur afköst, vöxt og þroska þess stjórnanda sem fær þjálfun. Árangurinn má merkja og mæla í aukinni sjálfsvitund, innsæi og þekkingu, sem nýtt er til aðgerða á milli funda með stjórnendamarkþjálfanum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þurfa aðilar að þekkja sjálfa sig, styrkleika og veikleika, til að geta brugðist rétt við, tekið réttar ákvarðanir og til að geta fyrirvaralaust tekið á öllu sínu.

Forsvarsmanni fyrirtækis eða skipulagsheildar getur reynst erfittað kasta fram og viðra hugmyndir sem snúa að hlutverki og framtíðarsýn fyrirtækisins. Það getur verið kalt á toppnum og erfitt að leita ráða, hvort sem er upp eða niður valdastigann.

Hlutverk stjórnendamarkþjálfans er að aðstoða stjórnandann við að sjá afleiðingar hugmynda sinna á reksturinn og finna leiðir til að takast á við þær hindranir sem í vegi hans kunni að verða.

Stjórnendamarkþjálfun nýtist þér og þínu fyrirtæki:

  • Þegar þú vilt bæta árangur þinn sem stjórnanda
  • Þegar þú vilt yfirstíga hindranir í starfi
  • Þegar þig vantar aðstoð við að takast á við breytingaferli
  • Þegar þig vantar betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs
  • Þegar þú vilt skoða hlutina frá öðru sjónarhorni
  • Þegar þú vilt skerpa á markmiðum og forgangsröðun
  • Þegar þú vilt prófa nýjar hugmyndir á hlutlausum aðila
  • Þegar þig vantar heiðarlega endurgjöf á viðhorf og skoðanir
  • Þegar þú vilt fá skýrari sýn á framtíðina 

Breytingamarkþjálfun

- áhrifarík leið til að takast á við breytingar í starfi

Breytingamarkþjálfun á við þegar starfsmaður stendur í vegi fyrir sjálfum sér með takmarkandi hugarfari eða hegðun. 

Breytingar innan fyrirtækis reynast starfsmönnum áskorun sem snúið er að takast á við. Það gleymist, eða mistekst stundum, að ná fram hollustu og samvinnu fólksins sem breytingarnar varða. Mannleg viðbrögð við breytingum birtast oft í viðnámi og/eða afneitun. Slíkt getur skapað gjá milli þeirra sem vinna að innleiðingu breytinga og þeirra sem þær hafa mest áhrif á.

Þá er oft gott að fá reyndan og hlutlausan breytingamarkþjálfa að málinu, til að skoða með viðkomandi starfsmanni hver hin raunverulegu áhrif breytinganna eru og hvaða áhrif þau hafi á framtíð hans í víðum skilningi.

Með hlutleysi og sáttaleit breytingamarkþjálfans og reynslu og eiginleikum starfsmannsins er þá unnið fordómalaust að lausn, með því að horfast í augu við framtíðina og þær afleiðingar sem óbreytt staða hefur í för með sér og hverju breytt hegðun og/eða hugarfar starfsmannsins gætu áorkað.