Egóið – ekki láta það standa í vegi fyrir þér

Ert þú með stórt eða sterkt egó?
Ert þú með stórt eða sterkt egó?

Egóið er það sem skilur þig frá öllu og öllum öðrum, gefur þér með öðrum orðum sérstöðu. Egóið er samansafn alls þess sem þú hefur upplifað og hefur mótað þig á lífsleiðinni. Þar af leiðandi er það einnig samsafn alls sem þú trúir staðfastlega að sé rétt eða rangt, mikilvægt eða léttvægt og gott eða slæmt. Egóið endurspeglar í huga okkar fyrir hvað við stöndum – hversu verðug eða óverðug við teljum okkur vera.

Egóið samanstendur því af okkar eigin hugmyndum um okkur sjálf. Þegar við brjótum upp orðið hug og myndir getum við gert okkur betri grein fyrir því að þetta eru einungis myndir sem við höfum sjálf málað í huga okkar. Svona er ég – þetta er ég og minn raunveruleiki! Þær setningar sem þú byrjar á orðinu „ég“ koma yfirleitt beint frá egóinu.

Við trúum sjálf hugsunum okkar og hugmyndum um okkur sjálf og okkar tilveru. Við gerum það oftar en ekki án þess að velta því fyrir okkur hvaðan þessar hugmyndir komu inn í huga okkar í upphafi. Hugmyndir okkar um eigin getu eða vanmátt eru því oft fastar – eins og þráhyggja – í huga okkar árum og áratugum saman án þess að við veitum því athygli hvort þær eigi yfirleitt við rök að styðjast.

Egóið getur verið mjög gagnrýnið á umhverfið og annað fólk á algerlega fölskum forsendum – án þess að sú rýni sé til nokkurs gagns fyrir okkur. Þarna stendur egóið í vegi fyrir okkur.

Þegar við áttum okkur á og göngumst við því að skoðanir okkar og hugmyndir um heiminn byggjast nánast alfarið á skilningi okkar (sem oft er takmarkaður) og okkar eigin túlkun á heiminum – því sem heyrum, sjáum og upplifum – fæðist umburðarlyndi og auðmýkt í hjarta okkar.

Umburðarlyndi og auðmýkt draga úr mætti egósins og við byrjum að opna huga okkar fyrir því að hugmyndir annarra geta oft verið jafngóðar eða betri en okkar eigin – þó svo að þær stangist á við það sem við (eða egóið) höfum talið rétt hingað til. Umburðarlyndi, auðmýkt og opinn hugur brúa því oft bilið á milli þín og þess sem raunverulega er.

  • Þú hefur oft heyrt talað um að einhver sé egóisti.
  • Hefurðu einhvern tímann velt merkingu orðsins fyrir þér?
  • Hvernig er sá sem er mikill egóisti?
  • Hver er andstæðan við að vera egóisti?
  • Í hverju liggur munurinn?

Ástæða þess að minnst er á egóið hér er sú að það stendur oft í vegi fyrir þroska okkar. Þegar við eigum kost á að læra eitthvað nýtt fer egóið oft í þann ham að verja sjálft sig. Þá finnum við okkur oft í þeim sporum að þurfa að viðurkenna að hugmyndir og skoðanir eru byggðar á sandi – við höfum haft rangt fyrir okkur. Það er í eðli egósins að verja sig í slíkum aðstæðum og auðveldasta leiðin til þess er að loka bæði augum og eyrum fyrir sannleikanum.

Hvers vegna heldurðu að mörgum þyki svona erfitt að segja: „Fyrirgefðu, ég hafði rangt fyrir mér“?

Hvað segir egóið um það? Hvað segir fórnarlambið um það?