Hvaða áhrif hefur markþjálfun á frammistöðu og starf leiðtogans?

Markþjálfun og frammistaða leiðtogans
Markþjálfun og frammistaða leiðtogans

Að efla mannauðinn og hlúa vel að honum er stór þáttur í starfsemi fyrirtækja sem ætla sér að ná langt og er því mikilvægt að fjárfesta vel í mannauðinum.

Leiðtogaþjálfun er stöðugt ferli með það að markmiði að auka frammistöðu og árangur leiðtogans og starfsmanna almennt. Markþjálfun er öflugt verkfæri þar sem áhersla er lögð á að efla sjálfsvitund einstaklinga og þar með sjálfstraust, samskiptahæfni, einbeitingu og ákveðni. Á þann hátt eykst skilningur þeirra á eigin tilfinningum, samskiptahegðun og hvaða áhrif hún hefur á aðra.

Markþjálfun getur því haft jákvæð áhrif á árangur fyrirtækis sem og persónulegan þroska starfsmanna, framleiðni, og hversu sterkt þeir helga sig starfinu.

Í markþjálfun er áhersla lögð á að gera gott betra. Núverandi staða er metin og skoðað hvort og hvernig hægt er að ná betri árangri. Þeir sem hafa mikla reynslu af markþjálfun nýta sér hana gjarnan þegar þeir finna þörfina á því t.d. í erfiðum aðstæðum, þar sem skerpa þarf fókusinn í ákveðnum verkefnum, fá betri yfirsýn og við ákvörðunartöku sem skilar sér í betri niðurstöðu. Þeir sem hafa mikla reynslu af markþjálfun hafa náð góðum árangri með að tileinka sér aðferðafræðina í sínu starfi.

Markmiðasetning

Hvert markmið sem við setjum okkur er sú stefna sem við ætlum að taka hverju sinni en markmiðasetning skipar stóran sess í markþjálfunarferlinu. Markmiðasetningin verður skýrari og markvissari og gjarnan koma fram ný sjónarmið sem viðkomandi var ekki búin að gera sér grein fyrir sem leiðir til betri árangurs.

Að fá þennan klukkutíma með marþjálfa er frábær leið til að opna dyr að fleiri tækifærum og setja fram markvissa aðgerðaáætlun til að ná settu marki.

Ákvörðunartaka

Þar sem mikið áreiti fylgir oft starfi stjórnenda gefst ekki alltaf tími til að meta og skoða aðstæður og því getur verið mjög árangursríkt að fara til markþjálfa til að raða niður verkefnum, fá skýra mynd, efla fókusinn og forgangsraða áður en ákvörðun er tekin. Á þann hátt styður markþjálfun stjórnendur í að taka betri ákvarðanir. Ákvarðanir eru teknar út frá meiri yfirvegun, fleiri sjónarhorn skoðuð, betra upplýsingaflæði er til starfsmanna og þeir gjarnan hafðir með í ákvörðunarferlinu.

Það að geta farið til markþjálfa og talað sig í gegnum verkefnin sem liggja fyrir varpar fram fleiri möguleikum og hjálpar til við að koma þeim í framkvæmd. Vinnubrögð verða agaðri, einbeiting betri og sjálfstraust í ákvörðunartökum eykst.

Markþjálfun hefur þau áhrif að ákvarðanir eru teknar með skipulagðari og markvissari hætti sem leiðir til tímasparnaðar fyrir alla sem eiga hlut að máli.

Jafnvægi á milli vinnu og einkalífs

Jafnvægi á milli vinnu og einkalífs er mikilvægur þáttur til að draga úr streitu og auka starfsánægju. Mikilvægt er að horfa á heildarmyndina þ.e.a.s. bæði þau verkefni sem lúta að starfi stjórnandans og einkalífi. Þeir sem fara í markþjálfun eru mun líklegri til að setja skýrari mörk á milli vinnu og einkalífs. Sjálfsrækt eykst sem skilar sér bæði í auknum afköstum og vellíðan í starfi og persónulegu lífi. Ef skortur er á jafnvægi milli vinnu og einkalífs aukast líkur á fjarvistum og starfsánægja og hollusta gagnvart fyrirtækinu minnkar. Þegar stjórnandi leggur áherslu á þessa þætti í sínu lífi þá eykst skilningur þeirra gagnvart starfsfólki sínu sem hefur jákvæð áhrif á frammistöðu og hollustu starfsmanna.

Í ljósi þess hversu mikilvægur þáttur þetta er ættu stjórnendur að leggja áherslu á jafnvægi milli vinnu og einkalífs bæði hjá sér sjálfum og starfsmönnum sínum til að draga úr líkum á því að brenna út í starfi.

Samskipti: það skiptir máli hvernig við segjum hlutina

Við getum öll tekið undir það að samskiptafærni er mikilvægur þáttur sem stjórnendur þurfa að búa yfir til þess að fá fólk til að vinna með sér. Það hvernig talað er við starfsmenn getur haft mikið að segja um afköst og útkomu í starfi. Markþjálfun getur haft mikil áhrif á samskiptafærni sem skilar sér í auknum afköstum og bættri frammistöðu starfsmanna. Samskiptin eru opnari sem endurspeglast í beittari spurningum og virkri hlustun sem ýtir undir aukið sjálfstæði starfsmanna.

„Þegar þú talar þá ertu aðeins að endurtaka það sem þú veist nú þegar, ef þú hlustar, þá gætir þú lært eitthvað nýtt.“ - Dalai Lama

Samskipti: auka virkni starfsmanna og ýta undir lausnamiðaða hugsun

Samskipti skipa stóran sess þegar stjórnendur virkja starfsfólk sitt í starfi. Þeir stjórnendur sem hafa mikla reynslu af markþjálfun hafa öðlast aukna færni í því að virkja fólk með sér sem leiðir til þess að starfsfólk öðlast meira sjálfstraust, er líklegra til að koma með sínar eigin hugmyndir og ná þannig betri árangri í starfi.

Stjórnendur sem búa yfir samskiptafærni eiga alla jafna auðveldara með að fá fólk til að vinna með sér og stuðla þannig að heilbrigðum og árangursríkum tengslum við starfsmenn.

Í markþjálfun er áhersla lögð á að skapa jákvæðar breytingar og hjálpa fólki að þróa sína eigin hæfileika. Stjórnendur sem hafa nýtt sér markþjálfun og kynnt sér aðferðina geta með góðu móti notað markþjálfun til að efla og auka frammistöðu sinna starfsmanna og orðið öflugir leiðtogar. Það að spyrja „hvernig myndir þú leysa þetta“ eða „hvað telur þú best að gera?“ í stað þess að segja hvernig verkefnið skuli leyst skilar sér í auknum árangri starfsmanna, fleiri hugmyndir fá hljómgrunn og starfsmenn verða virkari þátttakendur í hugmyndavinnu og framkvæmd. Starfsmenn verða óhræddir við að leita eftir aðstoð hjá samstarfsfélögum sem skilar sér í auknum afköstum.

Með því að beita þessari aðferð fer minni tími í að leysa vandamál og meiri tími gefst í að leiða hópinn í átt að settu markmiði.

Stjórnendur sem búa yfir samskiptahæfni ná mun betri árangri þegar kemur að vinnu með starfsfólki í að finna réttu lausnina, hvetja fólk til að finna lausnina sjálft með því að nota virka hlustun og leyfa fólki að tala sig í gegnum lausnina. Það getur ýtt undir sjálfsöryggi starfsmanna að hafa stjórnanda sem hlustar af athygli og gefur fólki tækifæri til að vinna sig í gegnum vandamálið og veitir uppbyggilega endurgjöf til starfsmanns.

Sjálfstæði: ýta undir persónulega vöxt starfsmanna

Hlutverk og ábyrgð stjórnenda er að miklu leyti að deila ábyrgð til starfsmanna og ýta undir þátttöku þeirra í starfsumhverfinu sem skilar sér í betri árangri í starfi. Mikilvægt er að leggja áherslu á mannlegu hliðina, sjálfstæði og persónulegan vöxt starfsmanna. Hvetja til samvinnu, deila verkefnum og ábyrgð, veita endurgjöf og hjálpa starfsmönnum að efla leiðtogahæfileika sína sem skilar sér í aukinni starfsánægju.

Góður leiðtogi býr yfir sjálfstrausti til að efla leiðtogahæfni starfsmanna sinna og raðar í kringum sig fólki sem vega upp á móti hans eigin styrkleikum.

 

Kolbrún Magnúsdóttir

Kolbrún Magnúsdóttir Leiðtogamarkþjálfi