Hvers virði er vottun í markþjálfun?

Vottanir International Coaching Federation
Vottanir International Coaching Federation

Markþjálfun er ekki lögverndað fag. Það þýðir að hver sem er getur ákveðið að kalla sig markþjálfa og farið að starfa sem slíkur.


Áður fyrr, þegar markþjálfun var á barnsskónum, þá var lítil sem engin krafa um faglega menntun eða próf og bara reynslan látin duga. Nú er öldin önnur og löngu búið að stofna alþjóðleg samtök um markþjálfun, International Coaching Federation (ICF) sem hafa það að markmiði að efla fagmennsku og gæði markþjálfunnar hvar sem er í heiminum.

Vottun tryggir gæði, reynslu og þekkingu á markþjálfun. Við útskrift úr grunnmarkþjálfanámi þá hafa nemendur lokið yfir 60 klukkustunda námi og þjálfun og hafa staðist þær grunnhæfniskröfur sem gerðar eru til markþjálfa af hendi ICF. Þó að það sé ekki vottun, þá er það viðurkennt nám sem sýnir fram á hæfni og þekkingu. Það er jafnframt fyrsti áfanginn að alþjóðlegri vottun. Þeir markþjálfar sem lokið hafa grunnnámi kallast viðurkenndir markþjálfar og eru fullfærir um að veita góða markþjálfun. 


Fyrsta vottun ICF, Associate Certified Coach (ACC), krefst grunnnáms í markþjálfun og byggir á yfir 100 klukkutíma markþjálfareynslu, tímum með mentormarkþjálfa, mati á markþjálfasamtali og prófi í hæfnisþáttum ICF. Á Íslandi eru nú um það bil 70 ACC vottaðir markþjálfar.

Næsta vottun ICF, Professional Certified Coach (PCC), krefst framhaldsmenntunar og byggir á að lágmarki 500 klukkutíma markþjálfareynslu, 10 tímum með mentormarkþjálfa, mati á tveimur markþjálfasamtölum og prófi í hæfnisþáttum ICF. Á Íslandi eru á milli tíu og fimmtán PCC markþjálfar starfandi.

Síðan kemur Master Certified Coach (MCC), sem byggir á enn meiri menntun í faginu og yfir 2500 klukkutíma markþjálfareynslu, auk svipaðra krafna og hinar vottanirnar tvær. Íslenskir MCC markþjálfar tveir.

Nú er lag að endurtaka upphaflegu spurninguna. Hvers virði er vottun í markþjálfun? Fyrir mér er svarið einfalt. Ég leita til vottaðs fagaðila frekar en óvottaðs þar sem ég geng að því vísu að viðkomandi sé faglegur, hafi þekkingu á því sem hann er að gera og dágóða reynslu.

 

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson

ACC markþjálfi