Markþjálfun hjálpar fólki að vakna til lífs síns!

Allir þessir dagar sem komu og fóru - var það lífið?
Allir þessir dagar sem komu og fóru - var það lífið?

Ýmsar getgátur eru uppi um hvað markþjálfun er og hvað markþjálfi gerir. Sumt hvílir á rökum á meðan annað hefur litast af fordómum. Fjöldi þeirra sem hafa lært markþjálfun á Íslandi telur í hundruðum en fjöldi ICF-vottaðra markþjálfa í tugum.

Hér á Íslandi erum við nokkrum árum á eftir hvað varðar almenna vitneskju um hvað markþjálfun er og hverjum hún nýtist. Margir halda að marþjálfun gangi aðallega út á að hjálpa fólki að setja sér markmið en það er álíka mikil einföldun og að halda að megintilgangur menntunar sé annað prófskírteini á vegginn.

Áhrifamáttur markþjálfunar er slíkur að ég fullyrði að það er fátt sem fólk gerir - sem góður markþjálfi getur ekki með kraftmiklum spurningum - hjálpað því að gera enn betur, hraðar, skilvirkar, oftar eða þá hætt að gera – allt eftir hvað það kýs að skoða og vil taka með sér úr samtalinu.

Fólk leitar til markþjálfa þegar það upplifir gjá á milli þess sem er og þess sem það þráir að verði. Í markþjálfun er ekki unnið fortíðinni með það sem er bogið eða brotið. Ef litið er til fortíðar þá er það í þeim tilgangi að ná í lærdóm sem hægt er að nýta til framtíðar. aðrir s.s. sálfræðingar eru sérfræðingar á því sviði.

Markþjálfi vinnur með fólki í að skoða hvernig hægt er að byggja á því sem er heilt og sterkt, þeim styrkleikum og þeirri reynslu sem viðkomandi býr yfir – með framtíðina að leiðarljósi. Þegar fólk vil eitthvað annað, meira eða betra þá liggur lausnin yfirleitt ekki í því að gera meira af því sama.

Markþjálfasamtali er best lýst sem markvissu, útkomumiðuðu og tilgangsdrifnu lærdómsferli þar sem markmið mótast og endurmótast af þeim innri hvata og verkvilja sem kvikna í markþjálfasamtalinu. Markþjálfi mun líklega ekki kenna þér margt en fáir standa honum framar þegar kemur að því að hjálpa þér að læra.

Ég er PCC-markþjálfi (Professional Certified Coach frá ICF) Í 1.348 klukkustundir hef ég setið og markþjálfað, þar sem ég sit í þægilegum stól, hlusta og spyr spurninga í þeim tilgangi að hjálpa fólki að finna sín eigin svör. Nokkuð þægileg innivinna myndu einhverjir segja.

Ég gef engin ráð, þarf ekki að mynda mér skoðun og ekki einu sinni að skilja til hlítar það sem um er rætt. Hversu flókið getur það verið, að sitja, hlusta og spyrja? Ef ég þyrfti að gefa fólki ráð, mynda mér skoðanir og skilja allt sem um væri rætt þá þyrfti ég ekki bara að vera vitsmunalegt ofurmenni heldur einnig taka ábyrgð á þeim ráðum sem ég gæfi – nokkuð sem ég er feginn að vera laus við. 

Það að sitja er maður nokkuð fljótur að komast upp á lagið með. Að hlusta eru heldur engin kjarnavísindi. Eða hvað? Það er auðvelt að færa sterk rök fyrir því að það sem við erum að segja er í raun aldrei það sem við erum að segja - það takmarkast alltaf af því sem hinn heyrir. Hér er dæmi: Hann spyr „Ertu þreytt ástin mín?“ hún svarar „Ertu að segja að ég sé ljót?“

Það sem gerir góðan markþjálfa að góðum markþjálfa er (að öðrum kostum hans ólöstuðum) færni hans í beita virkri og djúpri hlustun, að heyra meira en það sem fátæk orðin bera með sér. Listin að beita virkri hlustun hefur nefnilega með fleiri skynfæri en eyrun að gera. Þess vegna er svo rík áhersla lögð á það í markþjálfanámi (allavega hjá okkur í Profectus) að læra að tvinna saman hið sagða og hið ósagða.

Reynslan hefur kennt mér að stundum eru frásagnir fólks lítið meira en hálfbökuð útgáfa af því sem það er búið að telja sjálfum sér og öðrum trú um að sé þeirra sannleikur. Ég efast ekki um að það sé sá raunveruleiki sem fólk upplifir en það er ekki alltaf sá sannleikur sem það hefur talið sér trú um.

Ég er ekki að væna fólk um að fara vísvitandi með rangt mál heldur einungis að benda á að hin töluðu orð ná hvorki að fanga né bera með sér nema hluta þeirrar merkingar, tilfinninga og skilaboða sem að baki liggur, undir vitundinni. Þess vegna er hlustun á orðræðu nefnd grunn hlustun eða fyrsta stigs hlustun. Annars stigs hlustun er þegar við náum að setja orðin í samhengi við aðra lykilþætti sem eru á sama tíma að segja sína útgáfu af sömu sögu - á sínu eigin tungumáli. 

Oft er misræmi á milli þess sem orðin ná að fanga og þeirra hljóðu skilaboða sem við gefum frá okkur á sama tíma. Hér er ég að tala um þætti eins og líkamstjáningu sem hlýðir hljóðum skipunum undirvitundarinnar og einnig fararskjóta orðanna, þ.e. talhraða, tónhæð, áherslur og málhlé, sem leika einnig lykilhlutverk í því að varpa skærara ljósi á undirliggjandi viðhorf, skoðanir og tilfinningar. Það er áhugavert hve margir átta sig ekki á þessu misræmi hjá sér fyrr en markþjálfinn bendir þeim á það með virkri endurgjöf.

Þriðja stigs hlustun er þegar hlustað er á manneskjuna sem eina heild. Þegar sá sem hlustar er með fulla athygli hjá og á viðmælandanum, setur sjálfan sig og egóið til hliðar, sleppir takinu á eigin skoðunum og forðast einnig að túlka eða leggja eigin merkingu í það sem hann sér og heyrir. 

Hér er ég að lýsa einum af grundvallar hæfnisþætti markþjálfans. Eitt af hans lykilhlutverkum er að spyrja kraftmikilla spurninga — af alúðarfestu — og hlusta svo með þeim hætti að hann geti hjálpað fólki að skilja hvernig öskur hins vitræna sjálfs hefur stundum kæft hina mildu rödd hjartans og oft haldið hugrekki fólks í heljargreipum.

Þannig getur góður markþjálfi hjálpað fólki að færa sig úr vegi fyrir sér. Margir tengja við þá fullyrðingu að stærsta hindrunin í lífi okkar erum við sjálf. Að vera farþegi eða skipstjóri í sínu lífi gengur því oftar en ekki út á að kunna að hlusta á sjálfan sig og finna hugrekkið til að taka ákvörðun.

Að vakna til lífs síns er að taka meðvitaða ábyrgð á eigin uppskeru. Kannski lesa litlu gulu hænuna aftur til að minna þig á það er enginn að fara að gera hlutina fyrir þig og að stundum þarf að setja hagsmuni annara örlítið til hliðar og sjálfan sig framar í röðina.

Sá sem vaknar of seint til lífs síns gæti endað eins og gamli maðurinn sem sagði dapur — fullur af eftirsjá “Allir þessir dagar sem komu og fóru — var það lífið?”

@Ingvar Jónsson – PCC-markþjálfi Profectus.