Viðurkenndur fyrirtækja - og breytingamarkþjálfi

Viðurkenndur fyrirtækja - og breytingamarkþjálfi

(e. Certified Organizational Development Coach)

Hvernig setjum við okkur markmið

Námið er sérstaklega ætlað þeim sem vilja stuðla að eigin þróun og vexti í hlutverki markþjálfa. Í náminu er einnig lögð rík áhersla á hlutverk markþjálfa við þróun starfsfólks og hvernig hann getur stutt við breytingar innan fyrirtækja og skipulagsheilda. Í náminu er farið ítarlega í PCC-færniviðmið markþjálfunar, áskorandi markþjálfun, innleiðingu markþjálfunar á vinnustað, 360°-nálgun í breytingastjórnun, fimmtán lykilþætti tilfinningagreindar, meðvirkni á vinnustað, skilvirkri teymisvinnu og greiningu á heilbrigði menningar á vinnustað. Eftir því sem náminu framvindur munu nemendur öðlast dýpri skilning á því hvernig allir þessir þættir tengjast einnig órjúfanlegum böndum.

Við bjóðum alla velkomna í framhaldsnámið til okkar sem:

 1. Hafa lokið ICF-vottuðu grunnnámi hjá viðurkenndum fræðsluaðila og;
 2. hafa markþjálfað í a.m.k. 25 klst. við upphaf námsins.

Dags-og tímasetningar:

Framhaldsnámið hefst 30. ágúst og lýkur 30. nóvember.

Kennt er á Hótel Kríunesi við Elliðavatn.

 1. Undirbúningstími fyrir námið er þriðjudaginn 27. ágúst frá kl. 17:00 - 19:00 (fjarfundur á ZOOM).
 2. Fyrsta lotan (3 dagar) verður kennd frá 30. ágúst til 1. september frá 8:30-16:30 á hótel Kríunesi við Elliðavatn.
 3. Önnur lotan (3 dagar) verður kennd frá 11. október til 13. október frá 8:30-16:30 á hótel Kríunesi við Elliðavatn.
 4. Þriðja lotan (2 dagar) verður kennd frá 29. nóvember til 30. nóvember frá 8:30-16:30 á hótel Kríunesi við Elliðavatn.

Á milli lotna fá nemendur 10 mentortíma frá kennurum í náminu.

Sérstaða námsins

Sérstaða námsins liggur meðal annars í því að kennslufræðileg nálgun á rætur sínar að rekja til félagsvísinda. Í náminu fara nemendur í bæði persónulega og krefjandi vegferð þar sem þeir öðlast djúpan sjálfsskilning og um leið víðtækari skilning á mannlegu eðli. Sú nálgun hefur sýnt og sannað að í rekstrarumhverfi nútímans eru lykilforsendur árangurs verulega frábrugðnar þeim þjálfunaraðferðum sem lengi voru taldar hinar einu sönnu.Þær áherslubreytingar, uppbygging og kennslufræðileg nálgun sem hefur verið innleidd í þetta nýja framhaldsnám hafa reynst bæði stjórnendum og öðru starfsfólki mun betur í starfi, hvort sem litið er til framlegðar, skilvirkni, starfsmannaveltu, tíðni mistaka eða niðurstöðutalna. Þegar öllu er á botninn hvolft liggja verðmæti námsins meðal annars í því að nemendur læra af hverju úreltir stjórnunarhættir íhaldssemi standa í vegi fyrir persónulegum og faglegum árangri.

Mikil áhersla lögð á að nemendur leggi sig fram við að innleiða þá reynslu og þekkingu sem þeir öðlast samhliða náminu. Námið er fjölbreytt og vinnuframlag nemenda felst bæði viðveru í staðarlotum, fjarkennslu, lestri, hópavinnu og verkefnavinnu á milli lota.

Hvað er LEVEL 2 vottun frá ICF?

Level 2 vottað nám er „Allt innifalið“ markþjálfanám, það er að segja það inniheldur allt sem ICF gerir kröfu um fyrir vottun. Helsti munurinn á Level 1 vottuðu námi og LEVEL 2 vottuðu námi er að þeir fræðsluaðilar sem hafa uppfyllt ströng skilyrði LEVEL 2 vottunar, hafa einnig heimild til að meta og votta færni nemenda sinna við námslok í framhaldsnáminu miðað við PCC-færni hafi nemandi tekið bæði grunn-og framhaldsnám hjá Profectus. Standist nemendur það mat þá er það fullnægjandi undirbúningur fyrir umsókn, bæði fyrir ACC-vottun og PCC-vottun hjá ICF, allt eftir því hversu mikla reynslu (fjöldi klst. í markþjálfun) nemandi hefur öðlast.

Margir sem koma í námið eru enn að undirbúa sig fyrir ACC-vottun sem er fyrsta vottunarstig alþjóðlegrar vottunar frá ICF. Námið er frábær leið til að ljúka því vottunarstigi. ekki að bæta við sig frekara námi til að mega sækja um næsta vottunarstig (PCC) þegar að því kemur. Þeir nemendur sem læra og útskrifast hjá Profectus geta því látið meta PCC færni sína á íslensku og fá niðurstöður innan nokkurra daga í stað þess að þurfa að taka upp og senda hljóðupptökur af markþjálfasamtölum sínum á ensku til ICF í Bandaríkjunum, ásamt handritum af þeim upptökum til mats og yfirferðar og þurfa að bíða í allt að þrjá mánuði eftir niðurstöðum.

Nánari lýsing á náminu

Lota 1 - Dagur 1

Fyrsti dagurinn í náminu snýr að því að dýpka skilning þátttakenda á færniviðmiðum PCC-markþjálfans og því viðhorfi sem þeir vilja tileinka sér í náminu til að hámarka eigin árangur.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hver er munurinn á ACC-færni og PCC-færni markþjálfa?
 • Hvaða áherslumunur er á verklagi ACC- og PCC-markþjálfa?
 • Af hverju eru siðareglur ICF sá hornsteinn sem störf markþjálfa hvíla á og hvernig endurspeglast þær í markþjálfun innan fyrirtækja?
 • Hvenær verðum við fullorðin og hvernig tengist það starfi markþjálfa?
 • Hverjar eru helstu eftirsjár fólks og af hverju skiptir það máli?

Lota 1 - Dagur 2

Á öðrum degi er lögð áhersla á að skapa sálfræðilega öruggt umhverfi sem er lykilforsenda áskorandi markþjálfunar. Farið er í FACTS þjálfunarlíkanið þar sem sýnt er fram á hvernig áskorun og stuðningur verða að haldast í hendur ásamt mikilvægi þess að líta ávallt á mistök sem tækifæri til vaxtar.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hvað er „sálrænt öryggi“ og af hverju er það forsenda árangurs í markþjálfun?
 • Hvað er „áskorandi markþjálfun“ (e. Challenging Coaching), hver er ávinningur hennar?
 • Undir hvaða kringumstæðum þjónar það hagsmunum markþegans að markþjálfi sé áskorandi? (Yerked Dodson kúrfan og Flow líkanið)
 • Hvernig nýtir markþjálfinn endurgjöf af alúðarfestu?
 • Hver eru hin þrjú stig ábyrgðar markþega í fyrirtækjaumhverfi?
 • Af hverju er mikilvægt fyrir markþjálfa að undirbúa sig fyrir ZOUD? (e. The Zone of Uncomfortable Debate)

Lota 1 - Dagur 3

Á þriðja degi námssin er áhersla lögð á að losna frá vanabundnu þjálfunarmynstri og tileinka sér aðrar aðferðir sem efla vitund markþjálfans. Kynntar eru fjölbreyttar leiðir sem gagnast nemendum við að auka fjölbreytileika þeirrar þjónustu sem þeir veita. Einnig kynnast nemendur hvernig þeir geta nýtt ýmis greiningartól til að kanna raunstöðu einstaklinga og teyma innan fyrirtækja með það að leiðarljósi að aðgreina orsök og afleiðingu.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hvernig geta markþjálfar notað fleiri og áhrifaríkari leiðir til vitundarsköpunar?
 • Hver er ávinningurinn með því að nýta ýmis greiningartól og tæki við að kanna raunstöðu hjá einstaklingum og teymum áður en hafist er handa?
 • Hvaða greiningartól getur markþjálfi notað, af hverju á að nýta þau og undir hvaða kringumstæðum gagnast þau best?
 • Hvaða verkefni bíða nemenda áður en þeir mæta í næstu lotu?

Á milli fyrstu og annarrar lotu:

Á milli fyrstu og annarrar lotu skuldbinda nemendur sig til að innleiða þá nýju þekkingu sem þeir taka með sér úr fyrstu lotunni. Nemendur vinna markvisst að eigin markmiðum og einnig í hópum á milli lota til að auka líkurnar á því að hámarka árangur og persónulegan vöxt á meðan náminu stendur.

Strax eftir fyrstu lotuna hefst mentor-markþjálfun þar sem nemendur senda kennurum hljóðupptökur og vinna náið með þeim við að dýpka sjálfsþekkingu sína og færni ásamt því að kortleggja sína leið að PCC-færnimatinu sem á sér stað í lok námsins.

Lota 2 - Dagur 4

Fjórði dagurinn í náminu er tileinkaður meðvirkni og meðvirkni á vinnustað, í hverju orsakir hennar liggja og með hvaða hætti hún tengist framkomu okkar og hegðun. Þessi dagur – að öllum öðrum dögum ólöstuðum – hefur haft djúpstæð áhrif á nemendur þar sem þeir átta sig á því hversu mikill skaðvaldur meðvirknin er og hversu mikilvægt það er fyrir markþjálfa að vera meðvitaðir um birtingamyndir hennar.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hverjar eru birtingamyndir meðvirkni og hvaða áhrif getur hún haft á einstaklinga og sambönd.
 • Hvernig birtist meðvirkni á vinnustað?
 • Af hverju er meðvirkni ein af aðalástæðunum fyrir kulnun í starfi?
 • Hvernig er hægt að nýta mátt spurninga til að hjálpa markþegum að horfast í augu við eigin meðvirkni og styðja þá við að þróa heilbrigðari tengsl?
 • Hvernig getur markþjálfinn borið kennsl á merki um meðvirkni, bæði hjá sjálfum sér og markþegum sínum?

Lota 2 - Dagur 5

Fimmta daginn í náminu læra nemendur að beita 360°-hugsun. Hún opnar á víðtækara hugarfar markþjálfans, ekki einvörðungu í starfi sínu heldur einnig í daglegu lífi. 360°-nálgun gengur út á að þekkja sjálfan sig og læra að bera ótakmarkaða virðingu fyrir sérstöðu annara. Hæfnisþættir markþjálfans eru skoðaðir út frá 360°-hugmyndafræðinni sem dýpkar verulega skilning nemenda á þeirri dýpt sem þar er að finna.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hvað er 360°-hugsun og hvernig gagnast hún markþjálfanum í sínu starfi.
 • Hverjar eru hinar átta víddir 360°-hugsunar.
 • Hvernig eykur 360°-hugsun tilfinningagreind markþjálfans?
 • Hvernig geta bæði markþjálfar og stjórnendur nýtt 360°-hugsun við „ör-þjálfun“?
 • Hvernig er hægt að nýta 360°-hugsun til að auka skilvirkni og árangur?
 • Hvernig er hægt að nýta 360°-hugmyndafræðina við að leysa úr ágreiningi, setja sér markmið og við ákvarðanatöku?

Lota 2 - Dagur 6

Fimmti dagurinn í náminu er helgaður tilfinningagreind og mikilvægi hennar í hlutverki markþjálfans. Fyrir þennan dag hafa nemendur tekið EQi-2.0 tilfinningargreindar greiningu og fá niðurstöður sínar afhentar í byrjun dags. Fáir gera sér grein fyrir hversu afgerandi áhrif tilfinningagreind hefur á færni og vitund markþjálfans og því leggjum við ríka áherslu á að nemendur læri að þekkja eigin styrkleika og takmarkanir í öllum fimm lykilþáttum tilfinningagreindarinnar og undirflokkum þeirra: sjálfsbirtingu, sjálfstjáningu, félagsfærni, ákvarðanatöku og streitustjórnun.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Af hverju er tilfinningagreind mikilvægari en vitsmunagreind í starfi markþjálfans?
 • Hvernig hjálpar tilfinningagreind fólki að velja sér jákvætt viðbragð við neikvæðu áreiti?
 • Hver er birtingamynd hugsunar og þar af leiðandi hegðunar hjá þeim sem hafa sterka eða veika sjálfsskynjun (sjálfsvirðingu, sjálfsbirtingu og tilfinningavitund)?
 • Hver er birtingamynd hugsunar og hegðunar hjá þeim sem hafa eða skortir færni í sjálfstjáningu (tilfinningalegri tjáningu, staðfestu og sjálfsstæði)?
 • Hver er birtingamynd hugsunar og hegðunar hjá þeim sem búa yfir eða skortir félagsfærni (samkennd, samfélagslegri ábyrgð og samskiptafærni)?
 • Hver er birtingamynd hugsunar og hegðunar hjá þeim sem hafa eða skortir færni til ákvarðanatöku (Raunveruleikatengingu, stjórn á hvatvísi og lausnaleit)?
 • Hver er birtingamynd hugsunar og hjá þeim sem hafa eða skortir getu til streitustjórnunar (sveigjanleika, streituþol og jákvæðni)?
 • Hvernig tengjast þessir þættir innbyrðis og hvernig er markvisst hægt efla tilfinningalega færni?

Á milli annarrar og þriðju lotu:

Eftir aðra lotuna vinna nemendur verkefni sem snýr að því að skilgreina sjálfa sig í hlutverki markþjálfa, hvernig markþjálfar þeir vilja vera, hvaða þjónustu þeir munu bjóða, hver markhópur þeirra er og hvernig þeir munu markaðssetja sig að námi loknu – burtséð frá því hvort þeir starfi innan fyrirtækja eða ætli sér að vera sjálfstætt starfandi. Nemendur fá nánari útlistun á lokaverkefninu í lok annarrar lotu. Þó svo um persónulegt lokaverkefni sé að ræða mælum við með því að nemendur haldi áfram að vinna í hópum á milli lotu tvö og þrjú þar sem þeir geta sótt sér stuðning og hvatningu.

Mentor-markþjálfun með kennurum heldur áfram samhliða lokaverkefninu þar sem nemendur fá aðstoð svo þeir geti tekið flugið að námi loknu.

Lota 3 - Dagur 7

Á þessum næstsíðasta degi í náminu er farið í breytingastjórnun og hvernig markþjálfun getur nýst til að auka verulega líkurnar á árangri á öllum stigum hennar. Til þess þurfa nemendur að þekkja ferli breytingastjórnunar allt frá því að viðhorf nauðsynjar er framkallað að innleiðingu breytinga svo þær verði hluti af menningu fyrirtækisins. Mikilvægt er að nemendur mæti vel undirbúnir og séu búnir að kynna sér vel hin átta skref í breytingarlíkani Kotters því dagurinn gengur ekki út á að kenna breytingastjórnun. Deginum er varið í að flétta saman með áhrifaríkum hætti hlutverki markþjálfans, meðvirkni, 360°-hugsun og tilfinningagreind og hvernig sú óhefðbundna nálgun nýtist í hverju skrefi breytingastjórnunar. Þannig geta markþjálfar hjálpað öllum þátttakendum í breytingaferli að sjá, skilja og taka meðvitaðri ábyrgð á hlutverki sínu með ávinning heildarinnar að leiðarljósi.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Af hverju er svo mikil skörun á milli markþjálfunar, breytingastjórnunar, Design thinking og Google-sprint?
 • Hvernig nýtist það markþjálfa að þekkja öll skrefin í breytingarstjórnunarlíkani Kotters?
 • Af hverju er mikilvægt að kynda undir viðhorfi nauðsynjar í upphafi markþjálfunarsambands og hvernig tengist það áskorandi markþjálfun og ZOUD? (e. The Zone of Unconfortable Debate)
 • Hvaða tilgangi þjónar þverfaglegt forystuteymi og hvernig tengist það persónulegri markþjálfun?
 • Hvernig tengist þriðja skref Kotters, „Að móta skýra framtíðarsýn“ ábyrgðarhlutverki markþjálfans og mikilvægi vitundasköpunar?
 • Hvernig getur markþjálfi tekist á við sinnuleysi og varnarstöðu starfsmanna?
 • Hvað einkennir þroskaferli teyma og af hverju er mikilvægt fyrir markþjálfa innan fyrirtækja að þekkja vísbendingar ósjálfbærra eða óheilbrigðra teyma?
 • Hvernig geta markþjálfar hvatt markþegum sína til aðgerða með því að skilgreina, undirbúa og fagna áfangasigrum?
 • Hvernig er hægt að nýta meðbyr árangurs til endurskilgreiningar á frekari árangri og hvernig tengist það meðvirkni og tilfinningagreind markþega?
 • Hvernig getur markþjálfi hjálpað markþegum að festa jákvæðar breytingar í sessi þannig að þeir detti ekki í sama farið á ný?
 • Hvernig er hægt að nýta PAMF-hringrásina til að viðhalda árangri og stuðla að stöðugum framförum?
 • Hvað getum við lært af TOYOTA?

Lota 3 - Dagur 8

Á þessum síðasta degi námsins er byrjað á því að líta um öxl og skoða hvernig allt námið er samofið hlutverki markþjálfans. Á meðan náminu stendur getur verið erfitt að sjá skóginn fyrir trjám. Hver dagur í náminu ber nemendum nýja þekkingu sem dýpkar stöðugt skilning þeirra á hinum víðtæka áhrifamætti markþjálfunar. Því er mikilvægt að taka þyrlusýn á hvernig öll sú nýja þekking er samofin og órjúfanlegur hluti vaxtar og árangurs. Að lokum eru nemendur kynntir fyrir fleiri leiðum í markþjálfun sem þeir geta lært og tileinkað sér að námi loknu. Það er rík ástæða fyrir því að það er ekki gert fyrr í náminu því það er ekki fyrr en á þessum tímapunkti að nemendur eru undir það búnir að skoða til dæmis: umbreytandi markþjálfun (e. Transformational Coaching) eða sögumarkþjálfun (e. Narrative Coaching þar sem þær leiðir krefjast mun meiri færni og þekkingar en kennd er í grunnnámi í markþjálfun.

Eftir daginn hafa nemendur fengið svör við eftirfarandi spurningum:

 • Hvernig tengjast allir dagarnir í náminu órjúfanlegum böndum?
 • Hver er munurinn á hefðbundinni markþjálfun (e. Cognitive Coaching), umbreytandi markþjálfun og sögumarkþjálfun?
 • Hvernig er að vera útskrifaður markþjálfi úr framhaldsnámi Profectus vitandi að það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því hverju nemendur geta áorkað nema þeir sjálfir?

Eftirspurn eftir markþjálfum er að aukast

Eftirspurn eftir markþjálfum hefur verið að aukast bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Fyrirtæki eru að kalla eftir teymisþjálfun í mun meira mæli og rannsóknir hafa einnig varpað ljósi á að þeir sem kaupa þjónustu markþjálfa vilja gjarna meiri áskoranir og festu. Við vitum að framhaldsnámið hjá okkur standist fyllilega allar kröfur og væntingar, bæði markaðarins og nemenda.

Námið er krefjandi ferðalag þar sem stöðugt er unnið að framförum og aukinni sjálfsþekkingu nemenda. Í framhaldsnáminu er nemendum skipt upp í nokkur teymi og kynnast þar með á eigin skinni út á hvað teymisþjálfun gengur. Teymisvinnan tryggir nemendum einnig stuðning samnemenda á meðan náminu stendur, aðhald til að halda sér við efnið og tækifæri til að efla þrautseigju sína jafnt og þétt. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að kenna á 121 klukkustundum en með góðum kennurum, frábærum nemendum, fullkomnu kennslu- og stuðningskerfi á vefnum og brennandi ástríðu fyrir faginu læra nemendur yfirleitt alltaf meira en væntingar þeirra voru í upphafi náms.

Verð: 798.000 kr. (748.000 stgr.)
Lengd: 121 klst.

Innifalið í námskeiði

 • LEIÐTOGINN - Valdeflandi forysta eftir Ingvar Jónsson (að verðmæti 8.790,-)
 • Tilfinningagreiningin EQi-2.0 (að verðmæti 35.900,-)
 • Aðgangur að TANKINUM, kennslukerfi Profectus - bæði að öllu efninu sem tekið er fyrir í grunnnáminu og því sem fylgir framhaldsnáminu. Í TANKINUM er að finna öll verkefnin sem tengjast náminu, kennslumyndbönd af öllu því sem kennt er í náminu auk mikið af áhugaverðum og nytsamlegum upplýsingum og fræðslu sem gagnast nemendum á sínu ferðalagi. Þennan aðgang hafa nemendur í 12 mánuði eftir að náminu lýkur. (að verðmæti 24.000,-)
 • Útprentuð vinnubók með þeim verkefnum sem unnin í tímum.
 • Hver ertu og hvað viltu? eftir Ingvar Jónsson (að verðmæti 4.290,-)
 • Challenging Coaching eftir John Blakey og Ian Day (að verðmæti 4.900,-)
 • Tíu mentormarkþjálfunar tímar frá PCC-vottuðum markþjálfa (að verðmæti 119.000,-)
 • Fjórar skriflegar endurgjafir á eigin framistöðu í markþjálfun
 • Ljúfengar veitingar á meðan námskeiðinu stendur, kaffi, te og meðlæti ásamt súpu og heitum mat í hádeginu alla kennsludaga

Leiðbeinendur

Ingvar Jónsson
PCC-markþjálfi

Ingvar Jónsson

Ingvar Jónsson er stjórnunar- og markaðsfræðingur, EQ-sérfæðingur og PCC- fagþjálfi sem hefur þjálfað hefur stjórnendur hér heima og víða erlendis í á annan áratug til að efla færni þeirra í starfi. Ingvar hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín og framlag til mannauðsmála, meðal annarra: einn af 101 áhrifamestu markþjálfum í heimi (2019), ACRE Excellence in Creativity Award (2021), Global HR Maveric (2022), Iconic Coaching Leader (2023) og Golden Aim Award for Excellence and Leadership and Human Resource Management (2023). 

Ingvar hefur síðustu 7 ár skrifað og þróað nánast allt námsefni fyrir bæði grunn- og framhaldsnám Profectus. Hann er einnig rithöfundur og hefur síðustu ár skrifað nokkrar bækur sem eiga það sameiginlegt að fjalla að verulegu leyti um markþjáflun og nokkrar þeirra eru hluti af námsefni okkar. Þar má nefna: The Whole Brain Leader (2015) - Coaching - Bringing out the best (2016) - Sigraðu sjálfan þig! (2018) - Hver ertu og hvað viltu? (2020) , Brand Vision Cards (2021), Sigraðu sjálfan þig - aftur og aftur! (2022) og LEIÐTOGINN - Valdeflandi forysta (2024)

 

Örn Haraldsson
PCC-markþjálfi

Örn Haraldsson

Örn er sveitastrákurinn í teyminu, óx upp í sveitinni og ber þess heillandi merki. Hann hefur komið víða við á leið sinni í gegnum lífið, allt frá því að vinna við forritun og hugbúnaðarþróun auk þess að hafa lært og starfað sem jógakennari. Örn er einn af þeim sem er flestum stundum með báða fætur á jörðinni en á sama tíma reynist honum afar auðvelt nýta sína frjóu- og víðtæku hugsun sér og öðrum til framdráttar.

Einn af hans verðmætustu kostum í hlutverki kennara er að hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur og er bæði víðlesinn og rökfastur. Honum er eðlislægt að tala um hlutina eins og þeir eru af yfirvegun en um leið ótakmarrkaðri virðingu fyrir skoðunum og viðhorfum annarra. Örn starfar í fullu starfi sem markþjálfi en hefur síðustu ár sérhæft sig í teymisþjálfun og er afar eftirsóttur sem slíkur.

Valdimar Þór Svavarsson
ACC-markþjálfi

Valdimar Þór Svavarsson

Valdimar er með MS gráðu í stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðibraut Háskóla Íslands og BA gráðu í félagsráðgjöf frá sama skóla. Þá hefur hann einnig lokið Grunn- og framhaldsnámi í markþjálfun, hlotið NBI-Master Trainer réttindi auk þess að vera sérmenntaður í Áfalla og uppeldisfræðum Piu Mellody.

Hann lærði einnig markaðs- og útfluttningsfræði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og Auglýsingatækni hjá NTV. Hann hefur bæði langa og víðtæka reynslu af fyrirtækjaráðgjöf með áherslu á stefnumótun, mannauðsstjórnun, þjálfun og kennslu. Ótvíræðir styrkleikar Valdimars eru þó ekki bundnir námsgráðum, þekkingu og reynslu heldur því hver hann er. Geðþekkari menn eru vandfundnir og nærvera hans, umburðarlyndi og virðing fyrir nemendum sínum gera hann, af fullri virðingu fyrir öðrum kostum sem hann hefur að bera, að þeim frábæra kennara sem hann er.

Matti Osvald Stefánsson
PCC-markþjálfi

Matti Ósvald Stefánsson

Matti Ósvald Stefánsson M.Th.- NLP Pr. er heilsuráðgjafi og PCC-markþjálfi. Matti hefur kennt í grunn- og framhaldsnámi í markþjálfun í rúman áratug og því einn af reyndustu kennurum í markþjálfun sem við eigum hér á landi. Hann hefur haldið mikinn fjölda fyrirlestra og námskeiða á undanförnum áratugum, þar sem hann miðlar reynslu sinni af þúsundum lífsstílsviðtala síðustu 30 ára. 

Matti stundaði nám í International Professional School of Bodywork í USA frá 1988-1992 sem Massage Therapist og Holistic Health Practitioner með aukanámi frá Pacific School of Oriental Medicine. Hann hefur vottun frá The NLP Institute of Los Angeles og sem fagþjálfi frá ICF.